Vísindaferð í Álaugarey

Fámennur en góðmennur hópur lagði af stað frá Nýheimum þriðjudaginn 9. ágúst sl. í næst síðustu ferð barnastarfsins þetta sumarið. Förinni var heitið í vettvangsferð í Álaugaey, að skoða fornleifar og fræðast um jarðfræði svæðisins. Áður fyrr var Álaugarey stök eyja í Skarðsfirðinum og ekki talin hafa verið í byggð. Árið 1934 fannst þar kumlateigur þegar vegaframkvæmdir áttu sér stað. Fundust þar mannabein sem talin eru af kvenmanni, ásamt nokkrum munum sem hafa tilheyrt konunni: m.a. járnstöng-2 nælur–armbaugur og kambur. Í dag eru allir þessir gripir í varðveislu Þjóðminjasafnsins. Við tókum með okkur ljósmyndir af gripunum en myndirnar hjálpuðu okkur að skynja og skilja betur þennan merka fund. Veltum fyrir okkur hvort hér væri fundin hún Ólöf eða Álöf sem eyjan er ef til vill nefnd eftir. Það er aldrei að vita!

Við vorum heppin að lúpan (lítið augngler með stækkun) var með í ferð, þannig var hægt að skoða betur holufyllingar í steinum sem urðu á vegi okkar. Næst var stoppað við klettahamrana sunnan í Álaugarey og spáð og spekulerað í af hverju bergið í klettunum er svona mismunandi útlits. Ungu vísindamennirnir tóku ekki illa þeirri skoðun leiðbeinanda að þarna hafa verið ólíkir atburðir í gangi þegar berglögin mynduðust. Fyrst hefur átt sér stað öskugos sem síðan breytist í hraungos þar sem kvikan sem kemur upp storknar á yfirborði og myndar storkuberg en askan þéttist og límist saman undir þungu berginu. Fundum þrjár forvitnilegar holur í berginu og spurðum okkur hvort þetta gætu verið trjábolaför. Sumir höfðu meiri áhuga á hvort einhver byggi í holunum – aldrei að vita og eins gott að stinga prikinu inn í gatið með gát.

Það voru stuttir og lúnir leggir sem komu til baka úr sinni fyrstu vettvangsferð í Álaugarey og virtust ungu vísindamenn framtíðarinnar sáttir og sælir eftir daginn. Leiðbeinandi þakkar þeim skemmtilega ferð og óskar þeim gæfu í framtíðinni.

Hér má sjá myndir úr ferðinni okkar 

Einnig viljum við svo minna á Óvissuferðina sem farin verður í næstu viku. Þetta verður síðasta ferðin í sumar og mikilvægt er að skrá sig!