Óvissuferð Barnastarfsins í Hólm

Þriðjudaginn 16. ágúst sl. var komið að lokaferð í barnastarfi Hornafjarðarsafna og eins og síðustu ár var boðið upp á óvissuferð – eitthvert út í bláinn. Að venju er góð þáttaka í óvissuferðirnar okkar og að þessu sinni var engin undantekning á því. Alls mættu tuttugu hressir og kátir krakkar, tilbúnir að njóta ferðarinnar og skemmta sér vel.

Leið okkar lá vestur á Mýrarnar, nánar tiltekið í húsdýragarðinn að Hólmi. Guðrún bóndi og eigandi húsdýragarðsins tók á móti okkur og bauð okkur velkomin.  Hún fylgdi okkur í húsakynni dýranna og þar var margt skemmtilegt að sjá.  Þar var m.a. kálfur – svín – geitur – kanínur – naggrís – dúfur – fasanar – kalkúnar – lynghænur – silkihænur – og fullt fullt af ungum. Út við tjörn sáum við aliendur ásamt sauðfé á beit. Börnin undu sér vel í návist dýranna og nutu þess að upplifa sveitastemninguna. Að endingu var boðið upp á veitingar í veitingasalnum – kókómjólk og heimabakkelsi.

Það voru sælir og sáttir krakkar sem stigu upp í rútuna á ný en erfitt reyndist að ná þeim frá dýrunum, slíkur var áhuginn. Hér má svo sjá myndir úr ferðinni okkar.

Bestu þakkir til ábúenda í Hólmi, Guðrúnar og Magnúsar fyrir frábærar móttökur.

Fallastakki ehf þökkum við innilega fyrir samstarfið í allt sumar og sérstakar þakkir fær Olgeir bílstjóri fyrir sinn hlut, almenn liðlegheit og ómælda þolinmæði.

Starfsfólk Hornafjarðarsafna þakkar krökkunum sem tóku þátt í barnastarfinu á þessu sumri kærlega fyrir samveruna og vonumst til að sjá sem flesta á nýju ári.

Með kveðju,

Starfsfólk Hornafjarðarsafna

Bryndís, Ósk, Guðný og Siddý